Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga

Sveitarfélög reka undir stjórn heilbrigðisnefnda, sem kosnar eru eftir sveitarstjórnarkosningar, heilbrigðiseftirlit samkvæmt lögum nr. 7/1998 m.s.br. um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þar segir í 10. gr.

Ekkert sveitarfélag skal vera án heilbrigðiseftirlits og greiða sveitarfélögin kostnað við eftirlitið að svo miklu leyti sem lög mæla ekki fyrir á annan veg. 

Hlutverk heilbrigðiseftirlits og vöktunar er að fara með heilbrigðis- og mengunarvarnareftirlit skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, matvælaeftirlit skv. lögum nr. 93/1995 um matvæli og eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum skv. lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og reglugerðum skv. þeim. Heilbrigðisnefnd, eða embætti heilbrigðiseftirlits í hennar umboði, gefur út starfsleyfi fyrir allan starfsleyfisskyldan atvinnurekstur og sinnir reglubundnu eftirliti með honum auk þess að fara með málefni er varða gæludýrahald á grundvelli staðbundinna samþykkta.  Heilbrigðiseftirlit sinnir þjónustu og fræðslu til starfsleyfisskyldra fyrirtækja og íbúa er snýr að heilbrigðiseftirliti og vöktun umhverfis. 

 Yfirstjórn mála samkvæmt lögunum um hollustuhæti og mengunarvarnir er í höndum umhverfisráðuneytisins. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hvað varðar hollustuhætti og mengunarvarnir. Yfirstjórn matvælamála er hjá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Matvælstofnun hefur yfirumsjón með starfsemi heilbrigðiseftirlitsins hvað varðar matvælaeftirlit. Boðvald gagnvart starfslefyisskyldum rekstri er í höndum heilbrigðisnefnda.

Starfsemi heilbrigðiseftirlitssvæða er fjármögnuð að hluta með starfsleyfis- og eftirlitsgjöldum skv. gjaldskrá. Þessi gjöld eru oftast u.þ.b. helmingur af rekstrarútgjöldum heilbrigðiseftirlitsins. Afganginn greiða sveitarfélögin hlutfallslega miðað við íbúafjölda.