Refa- og minkaveiðar

Sveitarstjórnarmenn hafa um árabil gagnrýnt stefnu ríkisins hvað varðar refa- og minkaeyðingu. Á undanförnum árum hefur framlag ríkisins til þessa verkefnis ýmist staðið í stað að krónutölu eða jafnvel lækkað. Árið 2008 voru þannig veittar 30,6 m.kr. til þessa verkefnis, sem er nánast sama fjárhæð og árið 2003. Á fjárlögum fyrir árið 2009 er fjárhæðin nokkuð hærri, eða 34,8 m.kr.

Sveitarstjórnir standa því frammi fyrir því að annað hvort axla aukinn kostnað eða draga úr heildarframlögum til verkefnisins ef miðað er við verðlag. Ýmsar vísbendingar eru um að vöxtur sé mikill í bæði refa- og minkastofni og á hverju sumri berast fréttir af því að þessi þróun hafi neikvæð áhrif á viðgang villtra fugla og búfjár.

Í bréfi sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi fjárlaganefnd Alþingis 19. nóvember 2007 segir m.a.:

„Á fjárlögum ársins 2007 var tilgreind endurgreiðslufjárhæð til sveitarfélaga vegna veiða á ref og mink 34,6 m.kr. Athygli vekur að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gert ráð fyrir lægri fjárhæð eða 30 m.kr. til þessa verkefnis.

Endurgreiðsluhlutfall ríkisins á  kostnaði vegna refa- og minkaveiða var 23,7% á árinu 2006 og að teknu tilliti til þess að ríkið innheimtir virðisaukaskatt af kostnaðinum er endurgreiðsluhlutfallið tæp 14%. Kostnaður vegna refa- og minkaveiði er mjög íþyngjandi fyrir einstök fámenn landsstór sveitarfélög þar sem kostnaður nemur allt að 17.000 kr. á hvern íbúa og rúmlega þremur prósentum af heildar skatttekjum. Til að endurgreiðsluhlutfall ríkisins vegna þessa verkefnis verði um 50% eins og ráð var fyrir gert á sínum tíma þarf framlag á fjárlögum ársins 2008 að nema um 60 m.kr. (Sjá meðfylgjandi bréf til umhverfisráðherra og sundurliðun á kostnaði sveitarfélaga.)“

Í bréfi sem sambandið sendi umhverfisráðherra 28. janúar 2008 um fyrirkomulag refaveiða og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna veiðanna segir m.a.:

„Þann 15. nóvember 2007 áttu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga fund með umhverfisráðherra og starfsmönnum umhverfisráðuneytisins um endur-greiðslur ríkisins á kostnaði sveitarfélaga vegna refaveiða.

Á fundinum lýstu fulltrúar sambandsins m.a. þeirri skoðun sinni að skyldur sveitarfélaganna vegna veiðanna og endurgreiðslur ríkisins væru væntanlega tilkomnar vegna þess að tilgangurinn með veiðunum væri að vernda náttúru landsins alls gegn þeim skaðvaldi sem refurinn er í lífríkinu. Óeðlilegt væri því að einstök sveitarfélög bæru kostnað af því verkefni.

Jafnframt gerðu þeir grein fyrir háum kostnaði einstakra sveitarfélaga á hvern íbúa og í hlutfalli við skatttekjur í fámennum landstórum sveitarfélögum.

Einnig lögðu þeir fram upplýsingar um endurgreiðsluhlutfall ríkisins vegna veiða á ref og mink á árinu 2006, sem þá nam um 20% af heildarkostnaði sveitarfélaganna og upplýsingar um tekjur sem ríkið hefur af kostnaði við veiðarnar í formi virðisaukaskatts.

Fram kom á fundinum að umhverfisráðherra hefði fullan skilning á málstað sveitarfélaganna og stöðu fámennra landstórra sveitarfélaga þar sem kostnaðurinn væri hlutfallslega hár á hvern íbúa og sem hlutfall af skatttekjum.

Í ljósi viðræðna á framangreindum fundi er þess hér með farið á leit að umhverfisráðherra skipi starfshóp með fulltrúum umhverfisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fyrirkomulagi og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna refaveiða.“

Umræddur starfshópur hefur ekki enn verið skipaður. Á meðal þeirra gagna, sem vísað er til að ofan, er m.a. greining sem unnin var af SSNV um kostnað sveitarfélaga á Norðurlandi vestra vegna refa- og minkaveiða á árunum 2004-2006. Sérstaka athygli vekur að endurgreiðsluhlutfall ríkisins,  borið saman við tekjur ríkisins vegna VSK af veiðunum fer sífellt lækkandi enda hefur brúttókostnaður vegna veiðanna aukist mikið á sama tíma og framlög ríkisins standa nánast í stað.

Verkefnið leggst misjafnlega þungt á einstök sveitarfélög en fyrir landstór sveitarfélög er kostnaðurinn verulegur.