Loftslags- og loftgæðamál

Leiðbeiningar um brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti

Á undanförnum vikum hefur loftmengandi gasefnið brennisteinsdíoxíð borist frá eldstöð í Holuhrauni norðan Vatnajökuls til íbúa í mörgum sveitarfélögum og hefur styrkur efnisins stundum verið svo mikill að mælt er með mjög afgerandi varnaraðgerðum, svo sem að halda sig innandyra, loka öllum gluggum, hækka hitastig innanhús o.þ.h.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman leiðbeiningar um brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti þar sem m.a. eru tenglar á vefsíður sem geyma upplýsingar um loftgæði í andrúmslofti sem og viðbrögð við loftmengun. Einnig má finna þar tengla á helstu stofnanir sem fara með þessi mál.

Loftgæði í nærumhverfi

Gott andrúmsloft er með mikilvægustu lífsgæðum enda erfitt að vera án þess nema í mjög stuttan tíma. Í heild séð eru loftgæðin á Íslandi mjög góð, en í þéttbýli, sérstaklega í Reykjavík hefur við vissar aðstæður myndast óviðunandi ástand. Meginuppspretta loftmengunar er umferð farartækja, en uppblástur frá opnum svæðum er talsverður þáttur í myndun svifryks. Svifryk og köfnunarefnisdíoxíð úr bruna eldsneytis eru helstu loftmengunarefni. Á síðustu árum hefur orðið vart við lykt af brennisteinsdíoxíð sem berst frá jarðvarma orkuverum, á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögum á Suðurlandi.

Sveitarfélög, með Reykjavík í fararbroddi, hafa fylgst með loftgæðum í tuttugu ár og með ýmsum aðgerðum  á síðustu árum geta haldið loftmengun í skefjum þrátt fyrir mikla fjölgun farartækja á síðustu tíu árum. Á heimasíðu Umhverfis- og samgöngusviðs má fylgjast með loftgæðum í borginni og á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis með loftgæðum á starfssvæði heilbrigðiseftirlits.

Upplýsingar um loftgæði má einnig finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

Loftslagsbreytingar

Sveitarfélög eru í vaxandi mæli upptekin af neikvæðum áhrifum loftlagsbreytinga, ekki síður en ríki heimsins. Sveitarfélög hafa þrýst á um aukna aðkomu að heimsráðstefnum þar sem ákvarðanir eru teknar sem varða sveitarfélög miklu. Í mörgum löndum hafa sveitarfélög eða samtök þeirra mótað stefnu í því að bregðast við neikvæðum áhrifum loftlagsbreytingar, t.d. samtök sveitarfélaga í Svíþjóð.

Á íslandi hefur Reykjavíkurborg mótað sér stefnu í loftslagsmálum, almenn vitneskja um loftsbreytingar er að aukast og búast má við fleiri sveitarfélög taki ákvarðanir um stefnu í loftslagsmálum.