Alþjóðleg samvinna

Samtök evrópskra sveitarfélaga og héraða - CEMR

Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að evrópskum samtökum sveitarfélaga og héraða (á ensku: Council of European Municipalities and Regions, skammstafað CEMR). Hér má finna aðgang að heimasíðu CEMR.

Innan vébanda CEMR starfa margar sérfræðinefndir, m.a. um umhverfismál. Nefndin um umhverfismál (Working group on environment) fundar tvisvar á ári, fyrri fundurinn er haldinn í Brüssel, en seinni fundurinn á öðrum stað í Evrópu. Fulltrúi sambandsins hefur sótt þessa fundi síðustu árin.

Innan þessara sérfræðinefndir eru, eftir því sem tilefni er til, starfræktir vinnuhópar, svo sem um úrgangsmál. Á síðustu misserum hefur umfjöllun um loftslagsbreytingar verið allráðandi í umhverfisnefndinni og einnig í öðrum nefndum. Nefndir um orkumál og samgöngur hafa þannig haldið sameiginlega fundi með umhverfisnefndinni.

Mest áberandi í umræðu um úrgangsmál hafa verið ný rammatilskipun Evrópusambandsins um meðhöndlun úrgangs, endurskoðun tilskipunar um raf- og rafeindatækjaúrgang og endurnýting lífræns úrgangs.

CEMR hafa veitt Evrópuþingi umsagnir um gerðir Evrópusambandsins sem þingið stendur að og eru til umfjöllunar í þinginu. 

Municipal Waste Europe (MWE)

Árið 2007 hófst undirbúningur að stofnun samtaka fyrirtækja í eigu sveitarfélaga sem starfa að meðhöndlun úrgangs. Þetta var gert að frumkvæði Norðurlanda en í þeim hafa úrgangsmeðhöndlunarfyrirtæki sveitarfélaga myndað öflug samtök. Markmiðið er að undirstrika hlutverk sveitarfélaga sem veitendur almannaþjónustu, og er meðhöndlun úrgangs ein af mikilvægustu þjónustugreinum í þágu almennings. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ásamt úrgangsmeðhöndlunar samtökum frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörk tekið þátt í undirbúningi að stofnun Municipal Waste Europe. Municipal Waste Europe voru aldrei hugsuð sem norræn samtök heldur evrópsk og hefur verið unnið að því frá upphafi að fá samtök frá öðrum Evrópulöndum inn í Municipal Waste Europe. Að formlegri stofnun samtakanna árið 2009 komu auk Norðurlandanna (Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Svíþjóð) Holland, Austurríki, Ítalía, Þýskaland og flæmski hluti Belgíu. Síðan þá hafa Portúgal, Grikkland og Bretland gengið í ráðir MWE, og samtök úrgangsmeðhöndlunarfyrirtæki sveitarfélaga í fleiri Evrópuríkjum eru að íhuga þátttöku í MWE, svo sem í Frakkland, franska hluta Belgíu (Wallónía) og Póllandi. MWE hefur formlega stöðu hagsmunaaðila hjá Evrópusambandinu og þar með umsagnarrétt um regluverkið. 

Á heimasíðu MWE má finna  ýmsar upplýsingar um samtökin, áhugaverða tengla (Links), og afstöðuskjöl (Position papers) MWE.

Fylgst er með framvindu úrgangsmála hjá Evrópusambandinu með reglulegum uppfærslum sem finna má á síðunni hér að neðan.

Vikulegar uppfærslur frá MWE.